Fara í efni

Bakkafjörður og nágrenni

Bakkafjörður. Ljósm.: Markaðsstofa Norðurlands

Bakkafjörður. Ljósm.: Markaðsstofa Norðurlands

Byggð hefur verið á Langanesströnd frá landnámi eins og lýst er í Landnámabók. Með Langanesströnd (Ströndinni) er átt við ströndina frá Fossdal á Gunnólfsvíkurfjalli norður undir Langanesi og að Stapaá milli Viðvíkur og Strandhafnar í Vopnafirði. Þorp tók að myndast á Bakkafirði kringum aldamótin 1900 í tengslum við fiskveiðar, vinnslu og verslun. Í póstnúmeri 685 (Bakkafjörður) bjuggu í janúar 2021 alls 62 íbúar og 13 íbúar í póstnúmerinu 686 (dreifbýli). Um síðustu aldamót voru íbúar á Ströndinni samtals um 130. Íbúum hefur því fækkað um tæplega helming á tveimur áratugum. Sögu byggðar og búskapar á Langanesströnd er hægt að kynna sér hér annars staðar hér á síðunni.

Lífið á Bakkafirði snýst að mestu um fiskinn í sjónum og af veiðum á honum hafa margir lífsviðurværi sitt. Á Bakkafirði vinna flestir við eitthvað tengt fiskveiðum, stunda sjómennsku eða vinna í landi við fiskvinnslu. Á Bakkafirði eru eingöngu smábátaútgerð og byggjast veiðarnar aðallega á þorski og grásleppu á vorin. Nánar segir frá útgerðarsögu staðarins annars staðar á síðunni.

Enn er búskapur í sveitinni, þótt aðeins sé svipur hjá sjón miðað við t.d. miðja síðustu öld. Á Langanesströnd hefur búskapur alla tíð snúist nær eingöngu um sauðfjárrækt. Hin síðari ár hefur athygli manna m.a. beinst að ræktun annars konar áa, með tekjur af laxveiði í huga, enda þykja aðstæður í Bakkaflóa einstaklega vel til þess fallnar. Í Bakkaá veiddist t.d. stærsti lax, sem veiðst hefur á stöng á Íslandi. Nánar segir frá sveitinni í kring annars staðar hér á síðunni.

Ýmislegt merkilegt er hægt að skoða og fræðast um á Langanesströnd.

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?